Magnús í forsetaframboð

Magnús Ragnarsson.
Magnús Ragnarsson. mbl.is/Hari

Magnús Ragn­ars­son, fyrr­ver­andi sjón­varps­stjóri Sjón­varps Sím­ans og síðan fram­kvæmda­stjóri Miðla hjá Sím­an­um, hef­ur ákveðið að bjóða sig fram í kjöri for­seta ÍSÍ í næsta mánuði.

Þar með hafa fimm boðið sig fram en Lár­us Blön­dal læt­ur af störf­um sem for­seti á þingi sam­bands­ins í maí.

Það eru Will­um Þór Þórs­son, Olga Bjarna­dótt­ir, Brynj­ar Karl Sig­urðsson, Valdi­mar Leó Friðriks­son og nú Magnús Ragn­ars­son.

Magnús sendi frá sér eft­ir­far­andi frétta­til­kynn­ingu vegna fram­boðsins:

„Kæru vin­ir,

Ég hef skilað inn fram­boði til embætt­is for­seta ÍSÍ á kom­andi Íþróttaþingi. Íþrótta­hreyf­ing­in sinn­ir sí­fellt stærra hlut­verki sem ein af meg­in­stoðum sam­fé­lags okk­ar , kenn­ir börn­un­um okk­ar að ár­ang­ur fylgi ástund­un og  að glíma þarf bæði við tap og sig­ur á lífs­ins leið. Ég tala af reynslu þegar ég segi að íþrótt­ir veittu son­um mín­um ekki síður  inn­blást­ur en skóla­kerfið þegar þeir voru að vaxa úr grasi og þar fundu þeir marg­ar sín­ar mik­il­væg­ustu fyr­ir­mynd­ir.

Ég er fjarri því að vera inn­vígður í efri lög ÍSÍ og býð mig fram sem full­trúi grasrót­ar­inn­ar. Allt mitt líf hef ég verið virk­ur þátt­tak­andi í fleiri en einu sér­sam­bandi, hlaupið, synt, hjólað, tekið þátt í þríþraut og spilað bæði golf og tenn­is. Síðan 2023 hef ég verið formaður Tenn­is­sam­bands­ins og þekki því vel þær áskor­an­ir sem fylgja starfi sem byggt er á sjálf­boðavinnu.

Frá alda­mót­um hef ég starfað við viðskipta­hlið íþrótt­anna. Þar hef ég mikla reynslu af kaup­um og sölu á sjón­varps­rétti eft­ir að hafa rekið íþrótt­ar­ás­ina Sím­inn Sport  í nær ára­tug. Eitt af verk­um mín­um á þeim vett­vangi var að skapa Hand­boltapass­ann í sam­vinnu við HSÍ til að tryggja þeim tekj­ur til framtíðar.  Ásamt fé­laga mín­um stofnaði ég og átti  hjól­reiðakeppn­ina Wow Cyclot­hon sem varð fljótt stærsta hjól­reiðakeppni lands­ins og var ávallt rek­in með hagnaði. Að auki var ég fram­kvæmda­stjóri Lata­bæj­ar á blóma­skeiði þess æv­in­týr­is.

Aðal­til­gang­ur ÍSÍ er að þjón­usta gras­rót­ina og framund­an eru spenn­andi verk­efni. Skipu­lag íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar er sögu­lega flókið og kall­ar á ein­föld­un sem ein­ung­is verður unn­in í góðri sam­vinnu við ung­menna­fé­lög­in og héraðssam­bönd­in. Ég þekki vel til fjár­mögn­un­ar í gegn­um fjár­laga­gerð eft­ir að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra íþrótta­mála og veit að slík ein­föld­un get­ur gagn­ast öll­um.

Vöruþróun þarf að halda áfram af full­um krafti því þótt sta­f­rænni umbreyt­ingu fylgi vissu­lega áskor­an­ir þá býður hún uppá ótal tæki­færi. Eitt af því sem mig lang­ar að verði skoðað strax er að reka sam­eig­in­legt „media hub“ til að halda utan um allt það sta­f­ræna efni sem verður til inn­an sér­sam­band­anna en tín­ist jafnóðum á hörðum disk­um og minn­islykl­um hist og her. Slík þjón­usta myndi eyða mörg­um höfuðverkn­um.  Meðal annarra rekstr­ar­verk­efna er að ljúka hratt sjálf­virkni­væðingu skýrslu­skila og auka flæði upp­lýs­inga til iðkenda og aðstand­enda.

Við þurf­um að tala hátt og snjallt við stjórn­völd um fjár­mögn­un hreyf­ing­ar­inn­ar. Þar á að vera í al­ger­um for­gangi að verja og efla okk­ar verðmæta tekju­stofn í Íslenskri get­spá og binda endi á að millj­arðar renni til ólög­mætra og óá­byrgra fé­laga er­lend­is. Við þurf­um líka að fá fast land und­ir fæt­ur gagn­vart skatt­in­um sem allra fyrst þannig að sjálf­boðaliðar hreyf­ing­ar­inn­ar eigi aldrei á hættu að sæta refsi­á­byrgð.

Ég hlakka til að eiga sam­tal við ykk­ur öll á næstu vik­um. Hvernig sem kosn­ing­ar fara mun ég síðan bjóða fram krafta mína til að vinna að stefnu­mót­un sam­bands­ins til næsta ára­tug­ar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert