Magnús Ragnarsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Sjónvarps Símans og síðan framkvæmdastjóri Miðla hjá Símanum, hefur ákveðið að bjóða sig fram í kjöri forseta ÍSÍ í næsta mánuði.
Þar með hafa fimm boðið sig fram en Lárus Blöndal lætur af störfum sem forseti á þingi sambandsins í maí.
Það eru Willum Þór Þórsson, Olga Bjarnadóttir, Brynjar Karl Sigurðsson, Valdimar Leó Friðriksson og nú Magnús Ragnarsson.
Magnús sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu vegna framboðsins:
„Kæru vinir,
Ég hef skilað inn framboði til embættis forseta ÍSÍ á komandi Íþróttaþingi. Íþróttahreyfingin sinnir sífellt stærra hlutverki sem ein af meginstoðum samfélags okkar , kennir börnunum okkar að árangur fylgi ástundun og að glíma þarf bæði við tap og sigur á lífsins leið. Ég tala af reynslu þegar ég segi að íþróttir veittu sonum mínum ekki síður innblástur en skólakerfið þegar þeir voru að vaxa úr grasi og þar fundu þeir margar sínar mikilvægustu fyrirmyndir.
Ég er fjarri því að vera innvígður í efri lög ÍSÍ og býð mig fram sem fulltrúi grasrótarinnar. Allt mitt líf hef ég verið virkur þátttakandi í fleiri en einu sérsambandi, hlaupið, synt, hjólað, tekið þátt í þríþraut og spilað bæði golf og tennis. Síðan 2023 hef ég verið formaður Tennissambandsins og þekki því vel þær áskoranir sem fylgja starfi sem byggt er á sjálfboðavinnu.
Frá aldamótum hef ég starfað við viðskiptahlið íþróttanna. Þar hef ég mikla reynslu af kaupum og sölu á sjónvarpsrétti eftir að hafa rekið íþróttarásina Síminn Sport í nær áratug. Eitt af verkum mínum á þeim vettvangi var að skapa Handboltapassann í samvinnu við HSÍ til að tryggja þeim tekjur til framtíðar. Ásamt félaga mínum stofnaði ég og átti hjólreiðakeppnina Wow Cyclothon sem varð fljótt stærsta hjólreiðakeppni landsins og var ávallt rekin með hagnaði. Að auki var ég framkvæmdastjóri Latabæjar á blómaskeiði þess ævintýris.
Aðaltilgangur ÍSÍ er að þjónusta grasrótina og framundan eru spennandi verkefni. Skipulag íþróttahreyfingarinnar er sögulega flókið og kallar á einföldun sem einungis verður unnin í góðri samvinnu við ungmennafélögin og héraðssamböndin. Ég þekki vel til fjármögnunar í gegnum fjárlagagerð eftir að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra íþróttamála og veit að slík einföldun getur gagnast öllum.
Vöruþróun þarf að halda áfram af fullum krafti því þótt stafrænni umbreytingu fylgi vissulega áskoranir þá býður hún uppá ótal tækifæri. Eitt af því sem mig langar að verði skoðað strax er að reka sameiginlegt „media hub“ til að halda utan um allt það stafræna efni sem verður til innan sérsambandanna en tínist jafnóðum á hörðum diskum og minnislyklum hist og her. Slík þjónusta myndi eyða mörgum höfuðverknum. Meðal annarra rekstrarverkefna er að ljúka hratt sjálfvirknivæðingu skýrsluskila og auka flæði upplýsinga til iðkenda og aðstandenda.
Við þurfum að tala hátt og snjallt við stjórnvöld um fjármögnun hreyfingarinnar. Þar á að vera í algerum forgangi að verja og efla okkar verðmæta tekjustofn í Íslenskri getspá og binda endi á að milljarðar renni til ólögmætra og óábyrgra félaga erlendis. Við þurfum líka að fá fast land undir fætur gagnvart skattinum sem allra fyrst þannig að sjálfboðaliðar hreyfingarinnar eigi aldrei á hættu að sæta refsiábyrgð.
Ég hlakka til að eiga samtal við ykkur öll á næstu vikum. Hvernig sem kosningar fara mun ég síðan bjóða fram krafta mína til að vinna að stefnumótun sambandsins til næsta áratugar."