Æskuheimili rússneska skíðagöngukappans Aleksandr Bolshunov eyðilagðist í árás Úkraínumanna á þorpið Podyvotye í nótt.
Podyvotye er nokkrum kílómetrum frá landamærum Úkraínu og Rússlands en slík þorp hafa lent í árásum eftir að innrás Rússlands í Úkraínu hófst í febrúar 2022.
Húsið var í eigu foreldra Bolshunov en enginn særðist í árásinni. Samkvæmt Yuri Borodavko hafa foreldrar Bolshunov þó ekki búið í húsinu í langan tíma. Þetta kemur fram í umfjöllun rússneska miðilsins Championat.
Bolshunov er þrefaldur ólympíumeistari en hann hefur unnið til níu verðlauna alls á Ólympíuleikunum. Þá hefur hann ekki fengið að keppa á alþjóðlegum mótum frá því að Rússland réðst inn í Úkraínu.