Gamla ljósmyndin: Landsliðsþjálfari í tveimur greinum

Úr safni Morgunblaðsins.

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Meðfylgj­andi mynd fannst í mynda­safni Morg­un­blaðsins og þar er eng­inn ann­ar en Sig­ur­berg­ur Sig­steins­son að skalla knött­inn í leik með Fram gegn FH. Lík­lega fór leik­ur­inn fram í Laug­ar­daln­um þótt ekki sjá­ist það al­veg nógu vel á mynd­inni. Nán­ar til­tekið þar sem Þrótt­ur leik­ur í dag. 

Sig­ur­berg­ur var sér­stak­lega sterk­ur skallamaður og þó hann væri varn­ar­maður skoraði hann 14 mörk í 125 leikj­um fyr­ir Fram í efstu deild á ár­un­um 1967 til 1978, mörg þeirra með skalla.

Mynd­in er tek­in seint á átt­unda ára­tugn­um þegar Sig­ur­berg­ur lék með Fram. Hann var fjöl­hæf­ur íþróttamaður og á þeim árum var mis­jafnt hversu marga leiki hann lék á sumr­in því hann var jafn­vel enn betri á hand­bolta­vell­in­um en knatt­spyrnu­vell­in­um. 

Vel þekkt er sú staðreynd að árið 1970 urðu hann og syst­ur hans Odd­ný og Jó­hanna Íslands­meist­ar­ar í hand­knatt­leik. 

Þeim fer nú ört fækk­andi sem ná ár­angri í tveim­ur bolta­grein­um hér­lend­is og hvað þá að skara fram úr í tveim­ur bolta­grein­um. Sig­ur­berg­ur af­rekaði ekki bara að verða Íslands­meist­ari með Fram í báðum grein­um held­ur náði hann einnig að leika A-lands­leiki bæði í knatt­spyrn­unni og hand­knatt­leikn­um. Í knatt­spyrn­unni er hann reynd­ar í þeim hópi manna sem léku 1 A-lands­leik en sá hóp­ur er reynd­ar nokkuð fjöl­menn­ur.

Í hand­knatt­leikn­um lék hann 78 A-lands­leiki og er ólymp­íufari því hann var í liði Íslands á leik­un­um í München 1972. 

Enn merki­legra má telja að Sig­ur­berg­ur var landsliðsþjálf­ari í báðum grein­um. Hann stýrði kvenna­landsliðinu í hand­knatt­leik 1974-75 og 1980-83. Kvenna­landsliðinu í knatt­spyrnu stýrði hann árið 1985 og 1986. 

Hann var líka spilandi þjálf­ari í knatt­spyrn­unni um skeið en hann var leikmaður og þjálf­ari Leikn­is á Fá­skrúðsfirði árið 1975 og hjá Þrótti í Nes­kaupstað 1979 og 1980 þegar minnstu munaði að hann kæmi Þrótt­arliðinu upp í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert