Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Meðfylgjandi mynd fannst í myndasafni Morgunblaðsins og þar er enginn annar en Sigurbergur Sigsteinsson að skalla knöttinn í leik með Fram gegn FH. Líklega fór leikurinn fram í Laugardalnum þótt ekki sjáist það alveg nógu vel á myndinni. Nánar tiltekið þar sem Þróttur leikur í dag.
Sigurbergur var sérstaklega sterkur skallamaður og þó hann væri varnarmaður skoraði hann 14 mörk í 125 leikjum fyrir Fram í efstu deild á árunum 1967 til 1978, mörg þeirra með skalla.
Myndin er tekin seint á áttunda áratugnum þegar Sigurbergur lék með Fram. Hann var fjölhæfur íþróttamaður og á þeim árum var misjafnt hversu marga leiki hann lék á sumrin því hann var jafnvel enn betri á handboltavellinum en knattspyrnuvellinum.
Vel þekkt er sú staðreynd að árið 1970 urðu hann og systur hans Oddný og Jóhanna Íslandsmeistarar í handknattleik.
Þeim fer nú ört fækkandi sem ná árangri í tveimur boltagreinum hérlendis og hvað þá að skara fram úr í tveimur boltagreinum. Sigurbergur afrekaði ekki bara að verða Íslandsmeistari með Fram í báðum greinum heldur náði hann einnig að leika A-landsleiki bæði í knattspyrnunni og handknattleiknum. Í knattspyrnunni er hann reyndar í þeim hópi manna sem léku 1 A-landsleik en sá hópur er reyndar nokkuð fjölmennur.
Í handknattleiknum lék hann 78 A-landsleiki og er ólympíufari því hann var í liði Íslands á leikunum í München 1972.
Enn merkilegra má telja að Sigurbergur var landsliðsþjálfari í báðum greinum. Hann stýrði kvennalandsliðinu í handknattleik 1974-75 og 1980-83. Kvennalandsliðinu í knattspyrnu stýrði hann árið 1985 og 1986.
Hann var líka spilandi þjálfari í knattspyrnunni um skeið en hann var leikmaður og þjálfari Leiknis á Fáskrúðsfirði árið 1975 og hjá Þrótti í Neskaupstað 1979 og 1980 þegar minnstu munaði að hann kæmi Þróttarliðinu upp í efstu deild.