Norðmaðurinn Karsten Warholm setti fyrsta heimsmetið í 300 metra grindahlaupi á Demantamótaröðinni í frjálsum íþróttum í gær.
Demantamótaröðin fór af stað í Xiamen í Kína á föstudaginn og var í fyrsta skipti keppt í 300 metra grindahlaupi síðan Alþjóðafrjálsíþróttasambandið tilkynnti að hlaupið yrði opinber grein með sínu eigin heimsmeti.
Warholm kom í mark á tímanum 33,05 sekúndur og er þar með fyrstur í sögunni til að eiga opinbert heimsmet í greininni. Hann á einnig heimsmetið í 400 metra grindahlaupi.
Brasilíumaðurinn Matheus Lima kom annar í mark á 33,98 sekúndum og hinn japanski Ken Toyoda var sá þriðji á tímanum 34,22 sekúndur.