Sir Bradley Wiggins, fyrrverandi hjólreiðamaður sem vann fimm ólympíugull og Tour de France einu sinni, hefur opnað sig um baráttu sína við kókaínfíkn.
Í samtali við breska dagblaðið Observer kvaðst Wiggins hafa ánetjast kókaíni eftir að hann hætti keppni í hjólreiðum árið 2016.
„Á tímapunkti hélt sonur minn að ég myndi finnast látinn um morguninn. Ég var virkur fíkill. Fólk áttaði sig ekki á þessu. Ég var í vímu flestum stundum í mörg ár,“ sagði Wiggins, sem er 45 ára gamall.
Hann vann Frakklandshjólreiðarnar, Tour de France, árið 2012 og vann til tvennra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 auk þess að vinna til gullverðlauna í Aþenu 2004, Lundúnum 2012 og Ríó de Janeiro 2016.