Bandaríski tennisleikarinn Coco Gauff hrósaði sigri á Opna franska meistaramótinu í fyrsta sinn á ferlinum þegar hún lagði Arynu Sabalenku frá Hvíta-Rússlandi, 2:1, í úrslitum á leirnum á Roland Garros-vellinum í París í dag.
Sabalenka vann fyrsta sett 7:6 eftir upphækkun en Gauff vann annað sett örugglega, 6:2.
Bandaríkjakonan vann svo þriðja sett 6:4 og tryggði sér þannig sigur á risamóti í annað sinn en Gauff hafði áður unnið Opna bandaríska meistaramótið árið 2023.
Hún er aðeins 21 árs gömul og hefur því enn nægan tíma til þess að ná alslemmu; vinna öll fjögur risamótin. Hin tvö risamótin eru Opna ástralska meistaramótið og Wimbledon.