Ísland lagði Lúxemborg að velli, 3:2, í afar tvísýnum og spennandi leik í Evrópukeppni kvenna í blaki í Lúxemborg í kvöld.
Íslenska liðið vann þar með sinn annan sigur í fimm leikjum í keppninni en Lúxemborg hefur tapað öllum fimm leikjum sínum.
Ísland vann fyrstu hrinuna 25:22 en Lúxemborg sneri leiknum við með því að vinna þær næstu 25:21 og 26:24.
Ísland jafnaði metin á ný með öruggum sigri í fjórðu hrinu, 25:15. Oddahrinan var síðan æsispennandi og fór í upphækkun þar sem Ísland vann að lokum 16:14.
Heba Sól Stefánsdóttir var stigahæst hjá íslenska liðinu með 22 stig og Lejla Sara Hadziredzepovic var með 21 stig.
Íslenska liðið mætir Færeyjum í Lúxemborg í sjötta leik sínum í keppninni á morgun.