Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili lék fyrsta hringinn á Amundi German, Evrópumótaröðinni í Þýskalandi á tveimur höggum undir pari í dag.
Guðrún Brá, sem lék á 71 höggi, er núna í 15.-24. sæti en ekki hafa allir kylfingar lokið fyrsta hring.
Fjórar deila efsta sætinu á fimm höggum undir pari, 68 höggum, en það eru Alice Hewson frá Englandi, Helen Briem frá Þýskalandi, Amelia Garvey frá Nýja-Sjálandi og Ellinor Sudow frá Svíþjóð.
Dagbjartur Sigurbrandsson datt úr leik á Evrópumóti áhugakylfinga í golfi en leikið er á Vasatorps-vellinum í Svíþjóð.
Hann fór annan hringinn á 78 höggum eða sex höggum yfir pari og er í 103-107. sæti sem þýðir að hann kemst ekki í gegnum niðurskurðinn, en ekki allir kylfingar hafa lokið hringnum.
Andrea Bergsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir komust áfram á PGA Sweden-golfmótinu í Rimforsa í Svíþjóð en annar hringurinn fór fram í dag.
Andrea fór annan hringinn á 74 höggum eða tveimur höggum yfir pari og er í 36.-44. sæti en ekki hafa allir lokið keppni. Ragnhildur fór hringinn á pari og er í 45.-52. sæti en ekki hafa allir lokið keppni.
Perla Sól Sigurbrandsdóttir fór á pari í gær en endaði á 78 höggum í dag og er úr leik fyrir tvo seinni keppnisdagana.