Evrópumót 23 ára og yngri í frjálsíþróttum fer fram í Bergen í Noregi dagana 17.-20. júlí næstkomandi. Fimm íslenskir keppendur taka þátt á mótinu.
Arndís Diljá Óskarsdóttir keppir í spjótkasti, en hún náði lágmarki í byrjun apríl sl. þegar hún kastaði 51,97 m á móti í Bandaríkjunum. Hún er búin að vera á flottri siglingu í spjótkastinu undanfarnar vikur og mánuði en hún hefur kastað lengst 54,99 m og gerði hún það í lok maí sl.
Arndís Diljá verður fyrst íslensku keppendanna inn á völlinn en undankeppnin í spjótkasti kvenna fer fram fimmtudaginn 17. júlí klukkan 16.15 (hópur A) og 17.30 (hópur B) og úrslitin eru svo laugardaginn 19. júlí klukkan 18.55.
Júlía Kristín Jóhannesdóttir keppir í 100 m grindahlaupi, en hún náði lágmarki í lok mars sl. þegar hún hljóp á 13,74 sek á móti í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur hún bætt tímann sinn nokkrum sinnum og er hennar besti tími frá því í byrjun apríl sl. en þá hljóp hún á 13,62 sek.
Undanriðlar í 100 m grindahlaupi kvenna eru fimmtudaginn 17. júlí klukkan 16.40, undanúrslitin eru á föstudaginn 18. júlí klukkan 16.00 og úrslitin seinna sama dag klukkan 19.45.
Birta María Haraldsdóttir keppir í hástökki, en hún náði lágmarki vorið 2024 þegar hún stökk 1,87 á Norðurlandameistaramótinu í Malmö. Það er hennar besti árangur en undanfarin tvö ár hefur Birta María farið níu sinnum yfir 1,80 m.
Eva María Baldursdóttir keppir einnig í hástökki en hún náði lágmarki í janúar sl. þegar hún stökk 1,80 m á móti í Bandaríkjunum en síðan þá hefur hún gert sér lítið fyrir og stokkið yfir 1,84 m núna um miðjan júní.
Undankeppni hástökksins fer fram fimmtudaginn 17. júlí klukkan 19.45 og úrslitin fara svo fram laugardaginn 19. júlí klukkan 17.10.
Síðust til að keppa er Hera Christensen en hún keppir í kringlukasti. Hún náði lágmarki sumarið 2024 þegar hún kastaði 52,67 m á Bikarkeppni FRÍ. Hera er í góðu formi þessa dagana og bætti hún sig síðast á Evrópubikar þar sem hún kastaði 53,80 m, en það er aðeins tæpum metra frá Íslandsmeti Thelmu Lindar Kristjánsdóttur sem er 54,69 m frá sumrinu 2018.
Undankeppni kringlukastsins er fimmtudaginn 19. júlí klukkan 12.10 (hópur A) og 13.20 (hópur B) og úrslitin eru svo sunnudaginn 20. júlí klukkan 18.20.