Birkir Bjarnason, leikjahæsti landsliðsmaður Íslands í fótbolta, æfir með Bestu deildarliði FH um þessar mundir.
Fotbolti.net greinir frá.
Íslenski félagskiptaglugginn opnar á morgun og verður fróðlegt að sjá hvort Birkir semji við FH, en samkvæmt frétt fótbolta.net hefur ekki verið rætt um það hvort hann gangi mögulega í raðir FH.
Birkir sem er án félags lék síðast með Brescia í ítölsku B-deildinni en félagið varð gjaldþrota á dögunum og hefur verið lagt niður sem atvinnumannafélag.
Birkir sem er 37 ára gamall á gríðarlega langan atvinnumannaferil að baki í fjölmörgum löndum en hefur aldrei spilað deildarleik á Íslandi. Meðal liða sem hann hefur leikið með eru enska stórliðið Aston Villa og svissneska félagið FC Basel en flesta leiki á hann fyrir norska félagið Viking þar sem hann lék fyrst árið 2006.
Birkir er eins og áður segir leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi en hann lék 113 A-landsleiki, þann síðasta árið 2022.