Gamla ljósmyndin: Íslandsmeistari í gerólíkum greinum

Morgunblaðið/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Steinunni Sæmundsdóttur vippa inn á 18. og síðustu holuna á Grafarholtsvelli í Reykjavík á Íslandsmótinu í golfi sumarið 1988.

Eins og sjá má á myndinni hefur klúbbhúsið og heimkoman við 18. flötina lítið breyst síðustu áratugina. Merki fyrirtækjanna á auglýsingaskiltunum hafa þó eitthvað breyst sem og bílarnir sem sjást á bílastæðinu fyrir ofan.  Einar Falur Ingólfsson tók myndina og myndaði Íslandsmótið fyrir Morgunblaðið. 

Einnig má nefna að viðhorf gagnvart klæðaburði voru ekki eins stíf á þessum árum, alla vega hérlendis. Steinunn klæðist þægilegum íþróttabuxum sem ólíkt þeim klæðnaði sem sést á Íslandsmótinu í seinni tíð. 

Steinunn Sæmundsdóttir varð Íslandsmeistari í íþróttinni bæði 1986 og 1988. Hún hafði tveggja högga forskot á Karen Sævarsdóttur fyrir lokahringinn en sagðist í samtali við Loga Bergmann Eiðsson, sem fjallaði um mótið fyrir Morgunblaðið, hafa ímyndað sér að hún væri þremur höggum á eftir Karen. Kallaði þar fram rétta hugarfarið á lokadeginum og forðaðist að falla í þá gryfju að verja forskot. 

Steinunn er ekki óvön því að leika vel í Grafarholtinu en hún var mjög sigursæl á meistaramótum GR. Varð hún klúbbmeistari GR 1980, 81, 85, 86, 88, 89, 90. 

Þrátt fyrir þessi afrek er Steinunn samt sem áður þekktari fyrir afrek sín í skíðaíþróttinni og er tvöfaldur ólympíufari. Keppti hún bæði í Innsbruck 1976 og í Lake Placid 1980. 

Hafnaði Steinunn í 16. sæti í svigi á Vetrarólympíuleikunum 1976 og var aðeins 15 ára gömul sem er magnað afrek. Enn þann dag í dag er það besti árangur íslenskrar konu í alpagreinum á Vetrarólympíuleikum. 

Er hún margfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum skíðaíþrótta og náði því að vera Íslandsmeistari í tveimur gerólíkum greinum. Fleiri dæmi eru um slíkt eins og hjá Magnúsi Guðmundssyni frá Akureyri. 

Steinunn varð Reykjavíkurmeistari bæði í golfi (klúbbmeistari GR) og á skíðum árið 1980 og því engin furða að hún var útnefnd Íþróttamaður Reykjavíkur árið 1980. 

Steinunn hafnaði í 8. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins árið 1976. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert