Veit ekki hvort hann verði með á Opna bandaríska

Jon Rahm á fréttamannafundi í dag.
Jon Rahm á fréttamannafundi í dag. AFP/Alex Slitz

Spænski kylfingurinn Jon Rahm, sem er í áttunda sæti heimslistans, er ekki viss hvort hann geti tekið þátt á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem hefst í Pinehurst í Norður-Karólínu á fimmtudag.

Rahm er að glíma við sýkingu í vinstri fæti og þurfti að draga sig úr keppni á LIV Houston-mótinu eftir aðeins sex holur á öðrum hring síðastliðinn laugardag vegna óþæginda sem stöfuðu af sýkingunni.

„Þetta er áhyggjuefni. Þetta er betra en sársaukinn er mikill. Ég er með smá holu á milli tveggja táa og það kom sýking í hana.

Ég fékk sprautu sem átti að deyfa sársaukann og virka allan annan hringinn en virkaði einungis í tvær holur,“ sagði Spánverjinn á fréttamannafundi í dag.

Rahm var þá spurður hvort hann væri bjartsýnn á að geta tekið þátt á Opna bandaríska og svaraði einfaldlega.

„Ég veit það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert