Baráttan harðnar í Hvaleyrarbikarnum

Hulda Clara Gestsdóttir er í fyrsta sæti eftir daginn.
Hulda Clara Gestsdóttir er í fyrsta sæti eftir daginn. Ljósmynd/GSÍ

Annar keppnisdagur  í Hvaleyrarbikarnum í golfi var í Hafnarfirði í dag en mótið fer fram hjá Golfklúbbnum Keili.

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar er í fyrsta sæti eftir daginn en hún tók toppsætið af  Evu Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Eva náði sér ekki á strik og lék á 80 höggum eftir að hafa átt mjög góðan hring í gær á 70 höggum. Hulda nýtti sér það og lék á 73 höggum og bætti sig um þrjú högg milli daga. 

 Berglind Erla Baldursdóttir, úr GM, lék á 76 höggum í dag og hún og Eva eru aðeins höggi á eftir Huldu fyrir lokahringinn og ljóst að allt getur gerst í kvennaflokknum á morgun. 

Tómas Eiríksson Hjaltested úr Golfklúbbi Reykjavíkur er efstur í karlaflokki en hann setti vallarmet í gær og var þá kominn sjö högg undir par. Framan af í dag virtist hann líklegur til að stinga af en rak sig á að síðari níu holurnar geta bitið frá sér á Hvaleyrinni. Tómas fékk sex fugla á fyrstu 10 holunum og var þá samtals á þrettán undir pari sem er glimrandi spilamennska eins og gefur að skilja. Eftir það fékk hann hins vegar fimm skolla og skilaði inn hring upp á 71 högg.

Jóhann Frank Halldórsson, úr GR, lék á 68 höggum í dag og er tveimur höggum á eftir Tómasi.  Breki Gunnarsson Arndal, úr GKG, lék á 69 höggum og er í þriðja sæti á þremur undir pari samtals en Tómas er á átta undir pari samtals. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert