Bandaríski kylfingurinn Xander Schauffele fór ekki fögrum orðum um sjálfan sig eftir að hann lék holu á átta höggum, fjórum yfir pari, á fyrsta hring Zozo-mótsins í Japan á PGA-mótaröðinni.
Á níundu holu endaði teighögg Schauffele víðs fjarri flötinni þar sem kúlan hafnaði við trérætur.
Í stað þess að taka á sig vítahögg reyndi hann tvisvar að slá kúluna frá trérótunum en mistókst það í bæði skiptin.
„Ég vildi nánast taka ljósmynd af þessu, þetta var svo lélegt. Það að ég hafi haldið að ég gæti gert hvað sem er kom mér svo sannarlega í vandræði.
Ég hefði bara átt að taka á mig vítahögg en ég var hálfviti og reyndi að slá. Svo var ég þrjóskur og reyndi það aftur, svo tók ég loksins vítahögg,“ sagði Schauffele við fréttamenn eftir fyrsta hring.
Schauffele hristi hausinn og hló þegar hann íhugaði að reyna að slá kúluna í þriðja skipti en ákvað svo að taka taka vítahögginu, sem þýddi að hann fékk fjórfaldan skolla; lék á átta höggum sem stundum er kallað að fá snjókarl.
Eftir fyrsta hring er Schauffele búinn að leika á þremur höggum yfir pari.