Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Ólöf María Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Keili skráði nafn sitt í sögubækurnar umtöluðu þegar hún varð fyrsti íslenski kylfingurinn til að öðlast keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í golfi.
Ólöf María komst í gegnum úrtökumótin fyrir Evrópumótaröðina haustið 2004 og lék í fyrsta skipti á mótaröðinni á móti á Spáni í apríl 2005. Að komast inn á Evrópumótaröðina í gegnum úrtökumót er meiri þrekraun en margan grunar. Fjölmargir snjallir kylfingar reyna fyrir sér og er keppt á nokkrum stigum. Kylfingar sem eru að segja skilið við áhugamennskuna, til dæmis eftir háskólagolfið í Bandaríkjunum, en einnig koma reyndir kylfingar inn á lokastig úrtökumóta. Hafa þá misst keppnisréttinn á mótaröðinni og reyna að komast aftur inn.
Þegar uppi er staðið öðlast nokkrir fullan keppnisrétt af hundruðum sem kepptu og eru margir keppnisdagar að baki. Fyrir þá sem þurfa að byrja á fyrsta stiginu er þetta nánast eins og að þræða nálarauga.
Þessa skemmtilegu mynd af Ólöfu Maríu tók Golli fyrir Morgunblaðið á Íslandsmótinu í golfi sumarið 1999 eða fyrir aldarfjórðungi. Mótið fór þá fram á heimavelli hennar á Hvaleyrinni og stóð Ólöf uppi sem sigurvegari. Eins og sjá má nýtir Ólöf sér sandgryfju til þess að skoða púttlínuna betur. Ólöf varð fjórum sinnum Íslandsmeistari 1997, 1999, 2002 og 2004.
Ólöf María hélt keppnisrétti sínum á Evrópumótaröðinni árið 2005 og 2006. Eignaðist hún sitt fyrsta barn árið 2007 og tók sér frí frá íþróttinni af fjölskylduástæðum. Greindi hún frá alvarlegum veikindum sonarins í fjölmiðlum á þeim tíma.
Ólöfu tókst að vinna sér aftur keppnisrétt á mótaröðinni og lék á nokkrum mótum haustið 2008. En þá ákvað hún að segja skilið við atvinnumennskuna. „Ég er búinn að gefa þessum draumi mínum gott tækifæri og þetta hefur verið gaman og lærdómsríkt og ég sé ekki eftir neinu,“ sagði Ólöf María í samtali við Skúla Unnar Sveinsson í Morgunblaðinu á aðfangadag árið 2008.
Ólöf María hafnaði í 5. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins árið 2004 en var einnig á topp tíu listanum í kjörinu 2002 og 2005.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir einnig úr Keili keppir á lokastigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina í desember.