Allt í einu varð allt svart

Guan er varanlega blindur á vinstra auga.
Guan er varanlega blindur á vinstra auga. Ljósmynd/Instagram

Atvinnukylfingurinn efnilegi Jeffrey Guan, tvítugur Bandaríkjamaður, er blindur á öðru auga eftir slys sem hann varð fyrir á móti á dögunum.

Guan fékk golfkúlu í augað, með þeim afleiðingum að hann missti alveg sjón á vinstra auga.

„Hvernig í ósköpunum get ég komið til baka eftir þetta? Allt í einu varð allt svart og eina sem ég man eftir var að ég var í sjúkrabíl á leiðinni á spítala. Eftir nokkrar aðgerðir gat ég ekki lifað eðlilegu lífi.

Sársaukinn var ólýsanlegur, alveg sama hvað ég var að gera. Ég brotnaði á nokkrum stöðum í andliti og læknirinn sagði að það tæki mig sex mánuði að jafna mig. Síðan í kjölfarið kom í ljós að ég fæ aldrei aftur sjón á vinstra auga.

Auðvitað varð ég reiður og miður mín. Ég skildi ekki hvers vegna þetta hafði gerst við mig,“ skrifaði hann á Instagram. Guan hefur hins vegar ekki lagt árar í bát.

„Ég er með gott fólk í kringum mig og ég held áfram að leggja mig fram. Ég kem sterkari til baka og tek þessari áskorun,“ bætti hann við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert