Guðrún Brá Björgvinsdóttir lauk keppni á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi í Marrakech í Marokkó í dag með góðum hring.
Guðrún fór í gegnum niðurskurðinn á fjórða og næstsíðasta hring í gær og var í 65. sæti fyrir daginn í dag og þá á samtals einu höggi yfir pari.
Möguleikinn á að komast í hóp 20 efstu og vinna sér inn keppnisrétt á Evrópumótaröðinni 2025 var ekki raunhæfur en Guðrún lék vel, fékk þrjá fugla og lék hinar fimmtán holurnar allar á pari. Hún var því á þremur höggum undir pari í dag.
Fyrir vikið endar hún í 57.-59. sæti af 154 sem hófu mótið á samtals tveimur höggum undir pari.
Efstu 24 konurnar fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en til þess þurfti að leika á samtals 10 höggum undir pari.