Bandaríski kylfingurinn Jake Knapp varð í gær aðeins fjórtándi keppandi í sögu PGA-mótaraðarinnar sem leikur hring á minna en 60 höggum er hann lék á 59 höggum á Cognizant Classic í Palm Beach Gardens í Flórída-ríki.
Knapp, sem er númer 99 á heimslistanum, lék hringinn á tólf höggum undir pari og átti möguleika á að jafna lægsta skor í sögu mótaraðarinnar undir lokin en klikkaði á arnarpútti á 18. holu.
Hann byrjaði hringinn á fimm fuglum og bætti við sjö fuglum til viðbótar á holunum 13 sem eftir voru.
Jim Furyk er eini kylfingurinn sem hefur leikið hring á PGA-mótaröðinni á 58 höggum og er sömuleiðis sá eini sem hefur leikið á undir 60 höggum tvisvar, en hann náði einnig að leika hring á 59 höggum.
Tólf kylfingar til viðbótar hafa svo náð að leika á 59 höggum.