Úr fangelsi í Opna breska meistaramótið

Ryan Peake með bikarinn fyrir sigur á Opna nýsjálenska meistaramótinu.
Ryan Peake með bikarinn fyrir sigur á Opna nýsjálenska meistaramótinu. AFP/Andrew Cornaga

Það hafa örugglega ekki margir heyrt um ástralska kylfinginn Ryan Peake en hann tryggði sér í gær sæti á Opna breska meistaramótinu í golfi eftir að hafa unnið Opna nýsjálenska meistaramótið.

Peake þessi á nokkuð vafasama fortíð en hann var partur af mótorhjólagengi á sínum yngri árum og þegar hann var 21 árs þá fékk hann fimm ára fangelsisdóm fyrir alvarlega líkamsárás.

Peake hefur hinsvegar snúið við blaðinu og segir hann að golfið hafi átt stóran þátt í að koma sér aftur á beinu brautina.

„Ég er hálf orðlaus núna, þetta breytir öllu. Þetta er rosaleg saga og rosalegt augnablik,“ sagði Peake í viðtali eftir sigurinn á Opna nýsjálenska meistaramótinu.

„Ég vissi alltaf að ég gæti þetta, það var bara spurning um hvenær ég myndi gera þetta. Þetta er það sem ég geri núna, ég vil bara vera hér og spila golf,“ sagði Peake.

Auk þess að vinna sér inn þátttökurétt á Opna breska meistaramótinu, sem fram fer á Norður-Írlandi 17.-20. júlí n.k., þá fékk Peake 99.500 pund í verðlaunafé. Það jafngildir rúmlega sautján og hálfri milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert