Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods varð fyrir því óláni að slíta hásin er hann var við æfingar á heimili sínu á dögunum. Af þeim sökum gekkst hann undir skurðaðgerð í gær.
Woods greindi frá því í tilkynningu á samfélagsmiðlum í gær að aðgerðin hafi gengið vel og að nú einbeiti hann sér að endurhæfingu og að ná fullum bata.
Ljóst er að Woods verður lengi frá þar sem það tekur íþróttafólk iðulega fjóra til sex mánuði að jafna sig á því að slíta hásin.
Hann hefur ekki tekið þátt á neinu móti á PGA-mótaröðinni á yfirstandandi tímabili. Það stóð til fyrr á árinu en eftir að móðir Woods, Kultida, lést í byrjun febrúar dró hann sig úr keppni á nokkrum mótum.