Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy vann Players meistaramótið í annað sinn á ferlinum þegar hann hafði örugglega betur gegn J.J. Spaun í þriggja holu umspili á Sawgrass-vellinum í Flórída í dag, degi heilags Patreks.
McIlroy hefur átt góðu gengi að fagna á degi heilags Patreks þar sem hann vann einnig Players-mótið í fyrsta sinn og hefur unnið eitt mót til viðbótar á þessum sama degi.
„Ég er ótrúlega stoltur og hamingjusamur að vinna mitt annað Players-mót. Þetta er í þriðja skipti sem ég hef unnið á degi heilags Patreks.
Þetta hefur reynst vera happadagur fyrir mig,“ sagði McIlroy við fréttamenn eftir sigurinn, en þetta er annað mótið sem hann vinnur á PGA-mótaröðinni á tímabilinu.
Players-mótið er talið eitt stærsta golfmótið fyrir utan stórmótin fjögur; Masters-mótið, PGA-meistaramótið, Opna bandaríska meistaramótið og The Open.