Kylfingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson er í baráttu um sigur á enn einu háskólamótinu í Bandaríkjunum á tímabilinu eftir frábæra spilamennsku á fyrstu tveimur hringjunum í Pauma Valley Invitational-mótinu í Kaliforníu í gær.
Mótið er það sterkasta sem Gunnlaugur Árni hefur tekið þátt í á þessu skólaári en á mótinu taka sex af sjö bestu skólunum í efstu deild NCAA þátt.
Háskóli Gunnlaugs Árna, LSU, er í efsta sæti fyrir lokahringinn en skólinn er í sjöunda sæti á þessu tímabili yfir besta árangur allra skóla í efstu deild NCAA.
Íslenski landsliðskylfingurinn úr GKG hefur náð frábærum árangri á þessu skólaári en hann hefur endað á meðal 25 efstu kylfinganna í öllum sjö mótunum sínum.
Gunnlaugur Árni, sem er nýliði í háskólagolfinu, er í 12. sæti yfir bestu háskólakylfingana. Einungis fimm nýliðar eru á meðal 100 bestu háskólakylfingana.