Kylfingurinn þaulreyndi John Daly gerði á dögunum gys að heilsuvandamálum sínum í gegnum tíðina.
Hinn litríki Daly hefur verið með þátttökurétt á PGA mótaröðinni frá árinu 1992 og sagði í myndskeiði sem mótaröðin deildi á samfélagsmiðlum:
„Ég bjóst ekki við því að vera hérna í þrjá áratugi. Ég hef bara dáið 11 sinnum. Ég er eins og Lasarus, ég held áfram að rísa upp frá dauðum. Á þessum tíma gat ég í raun og veru spilað leikinn.“
Hann gekkst undir bráða skurðaðgerð á hendi í janúar og sagði þá á samfélagsmiðlum að aðgerðin hafi gengið vel. Daly bætti því við að hann yrði farinn að spila aftur áður en langt um liði.
Reyndist það rétt þar sem Daly, sem er 58 ára gamall, sneri aftur á völlinn á Hoag Classic-mótinu, sem er hluti af Champions-mótaröðinni, í síðasta mánuði.