Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy er að glíma við meiðsli á olnboga um þessar mundir en keppni í einu af risamótum tímabilsins, Mastersmótinu á Augusta National vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum, hefst eftir rúma viku.
McIlroy, sem er í öðru sæti heimslistans, segir olnbogann hafa verið að angra sig að undanförnu.
„Hægri olnboginn hefur verið að valda mér smá vandræðum þannig að ég fæ kannski meðhöndlun vegna meiðslanna til þess að sjá til þess að það verði í lagi með hann áður en keppni hefst í Augusta,“ sagði hann í samtali við Golf Channel.
Mastersmótið er eina mótið af risamótunum fjórum sem McIlroy hefur ekki enn tekist að vinna á ferlinum, en hann er 35 ára gamall.
Mastersmótið fer fram frá 10. til 13. apríl.