Argentínski kylfingurinn Ángel Cabrera mun taka þátt á Masters-mótinu í Augusta í Georgíuríki í Bandaríkjunum, sem hefst í vikunni, í fyrsta sinn í sex ár.
Cabrera var árið 2021 dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í Argentínu fyrir líkamsárás, hótanir og áreitni í garð tveggja fyrrverandi kærasta sinna, Ceciliu Torres Mana og Micaelu Escudero.
Honum var sleppt lausum í ágúst árið 2023 og sagðist í lok árs gjarna vilja taka þátt aftur á Masters-mótinu, sem Cabrera vann árið 2009. Einnig hefur hann unnið Opna bandaríska meistaramótið, gerði það árið 2007.
PGA-mótaröðin greindi frá því þegar Cabrera losnaði úr fangelsi að hann væri enn gjaldgengur til að taka þátt í mótum á vegum mótaraðarinnar.
Vandræði með vegabréfsáritun til Bandaríkjanna á undanförnum árum hafa komið í veg fyrir það en Cabrera verður með í ár. Sigurvegarar á Masters-mótinu hafa keppnisrétt á Masters til æviloka.