Bandaríski kylfingurinn Scottie Scheffler, ríkjandi meistari á Mastersmótinu sem hefst á morgun, sló á létta strengi á fréttamannafundi í gærkvöldi.
Scheffler bauð venju samkvæmt í meistarakvöldverð Mastersmótsins í aðdraganda þess, þar sem hann bauð fyrrverandi sigurvegurum upp á “Papa Scheff” kjötbollur og ferskt ravioli í gærkvöldi.
Scheffler gat ekki tekið þátt í fyrstu mótum ársins eftir að hann skar sig á hendi á jóladag við útbúning fersks raviolis. Á fundinum var hann spurður hvort staðið hefði til að bjóða kylfingunum að gera sitt eigið ravioli.
„Ef ég væri að hugsa til þess að útrýma samkeppninni myndi ég pottþétt vera með sýningu, eitthvað í þeim dúr, en vonandi forðast meiðslin. Kannski skera þeir steikina fyrir mig og ég þarf ekki að nota hníf. Við sjáum til,“ sagði Scheffler og skellihló.
Hann minntist þá einnig á að frjókornin á Augusta-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum, þar sem Mastersmótið fer fram, væru að gera honum grikk vegna ofnæmis.
„Frjókornamagnið er aðeins verra en á venjulegu ári. En mér líður vel og er klár í slaginn. Smá nefrennsli er ekki að fara að stöðva mig,“ bætti Scheffler við.