Lætur frjókornaofnæmið ekki stöðva sig

Scottie Scheffler.
Scottie Scheffler. AFP/Michael Reaves

Banda­ríski kylf­ing­ur­inn Scottie Scheffler, ríkj­andi meist­ari á Masters­mót­inu sem hefst á morg­un, sló á létta strengi á frétta­manna­fundi í gær­kvöldi.

Scheffler bauð venju sam­kvæmt í meist­ara­kvöld­verð Masters­móts­ins í aðdrag­anda þess, þar sem hann bauð fyrr­ver­andi sig­ur­veg­ur­um upp á “Papa Scheff” kjöt­boll­ur og ferskt ravi­oli í gær­kvöldi.

Scheffler gat ekki tekið þátt í fyrstu mót­um árs­ins eft­ir að hann skar sig á hendi á jóla­dag við út­bún­ing fersks ravi­ol­is. Á fund­in­um var hann spurður hvort staðið hefði til að bjóða kylf­ing­un­um að gera sitt eigið ravi­oli.

„Ef ég væri að hugsa til þess að út­rýma sam­keppn­inni myndi ég pottþétt vera með sýn­ingu, eitt­hvað í þeim dúr, en von­andi forðast meiðslin. Kannski skera þeir steik­ina fyr­ir mig og ég þarf ekki að nota hníf. Við sjá­um til,“ sagði Scheffler og skelli­hló.

Meira af frjó­korn­um

Hann minnt­ist þá einnig á að frjó­korn­in á Augusta-vell­in­um í Georgíu­ríki í Banda­ríkj­un­um, þar sem Masters­mótið fer fram, væru að gera hon­um grikk vegna of­næm­is.

„Frjó­korna­magnið er aðeins verra en á venju­legu ári. En mér líður vel og er klár í slag­inn. Smá nefrennsli er ekki að fara að stöðva mig,“ bætti Scheffler við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert