Spænski kylfingurinn José Luis Ballester tók í dag þátt á Mastersmótinu í Augusta í Georgíuríki í Bandaríkjunum í fyrsta sinn. Fyrsti hringurinn reyndist honum eftirminnilegur en þó af sérstakri ástæðu.
Ballester kastaði nefnilega af sér vatni við læk á vellinum í Augusta í stað þess að nýta sér salerni sem eru þar víðs vegar.
„Ég gleymdi því algjörlega að það væru salerni vinstra megin við teiginn. Ég þurfti virkilega að pissa. Ég vissi í raun ekki hvert ég ætti að fara.
Þar sem Justin Thomas átti í vandræðum á „greeninu“ hugsaði ég með mér að ég lauma mér hérna snöggvast við ána.
Þá hugsaði ég að fólk myndi ekki sjá mikið til mín, og svo klappaði það fyrir mér,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir Ballester.