Norður-Írinn Rory McIlroy sýndi vígtennurnar í dag þegar hann lék annan hringinn á Masters-mótinu í golfi á 66 höggum.
Masters er fyrsta risamótið á ári hverju hjá körlunum og fer ávallt fram á Augusta National vellinum glæsilega í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Er það eina risamótið sem er ávallt á sama vellinum.
McIlroy blandaði sér í baráttu efstu manna með spilamennskunni í dag en margir eru enn úti á velli og einn þeirra er Scottie Scheffler, efsti kylfingur heimslistans. McIlroy er samtals á 6 undir pari en hann lék á parinu í gær. Þá var McIlroy á 4 undir pari eftir 14 holur en fékk tvo skramba á lokakaflanum og það sem virtist vera góður fyrsti hringur rann út í sandinn.
Rory McIlroy hefur unnið hin þrjú risamótin og vantar græna jakkann til að ná slemmunni. Fyrir vikið er ávallt mikil athygli sem beinist að honum á Masters. Hann hefur auk þess byrjað árið afar vel á PGA-mótaröðinni.
Englendingurinn Justin Rose er efstur á 8 undir pari og var á höggi undir pari í dag. Bryson DeChambeau er annar, aðeins höggi á eftir, 2og hefur einnig lokið leik í dag.
Scottie Scheffler er samtals 6 undir pari og er á tveimur undir eftir 8 holur í dag. Hann er líklegur til afreka og sigraði á mótinu í fyrra en einnig 2022.