Norður-Írinn Rory McIlroy fær tækifæri á morgun til að ná slemmunni í golfíþróttinni en hann er efstur fyrir lokadaginn á Masters mótinu, fyrsta risamóti ársins.
McIlroy átti aftur frábæran hring og lék á 66 höggum eða 6 undir pari, rétt eins og í gær. Hann lék fyrsta hringinn á pari en hefur heldur betur spýtt í lófana og hefur nú tveggja högga forskot.
Bryson DeChambeau er á 10 undir pari eftir að hafa leikið á 69 höggum. DeChambeau púttaði virkilega vel og það kom honum í annað sætið en slátturinn var brokkgengur hjá DeChambeau. Verður hann því ásamt McIlroy í síðasta ráshópi á lokahringnum annað kvöld.,
Kanadamaðurinn Corey Conners er á 8 undir pari. Hann hefur aldrei barist um sigurinn fyrir alvöru á Masters en kann vel við sig á Augusta því hann hefur þrívegis verið á meðal 10 efstu á síðustu árum.
Næstu menn á eftir eru ansi langt á eftir McIlroy. Þeir eiga því tæplega möguleika nema Norður-Íranum fatist verulega flugið á morgun.
Patrick Reed sem sigrað hefur á mótinu er á 6 undir eins og Svíinn Ludvig Aberg. Jason Day, Scottie Scheffler, Shane Lowry og Justin Rose eru á 5 undir pari samtals. Scheffler er í efsta sæti heimslistans og sigraði á Masters í fyrra. Flestir bjuggust við góðum hring hjá honum en sú varð ekki raunin. Hann lék á pari og þurfti í rauninni að berjast fyrir því. Justin Rose var í efsta sæti á -8 en lék á 75 höggum. Eins og oft áður sást að hann púttar ekki nægilega vel til að vinna en hann fékk nóg af tækifærum til að leika hringinn undir pari og halda sér í toppbaráttunni.
Rory McIlroy hefur unnið hin þrjú risamótin í golfinu en vantar Masters til að ná slemmunni. Á síðari árum er Tiger Woods sá eini sem náð hefur að vinna öll risamótin á ferlinum. Sigursælir kylfingar eins og Seve Ballesteros, Tom Watson, Nick Faldo eða Phil Mickelson náðu því ekki sem dæmi. Mickelson vantar Opna bandaríska og svipað má segja um Jordan Spieth sem vantar PGA meistaramótið í safnið. ,