Með sigrinum á Masters í gærkvöldi hefur Norður-Írinn Rory McIlroy sigrað á öllum fjórum risamótunum í golfinu sem kölluð eru Grand Slam á ensku.
Er hann einungis fimmti kylfingurinn sem unnið hefur risamótin fjögur sem nú eru í gangi í golfinu hjá körlunum. Aðrir sem náð hafa slíku afreki eru Gene Sarazen, Ben Hogan, Gary Player, Jack Nicklaus, Tiger Woods og nú Rory McIlroy.
Skýrir þetta ef til vill tilfinningarnar sem brutust út hjá McIlroy þegar sigurinn var í höfn á Augusta National undir miðnætti. Hvort sem það var á 18. flötinni eða í verðlaunaafhendingunni og ræðuhöldum. Nú hefur hann komið sér rækilega fyrir í sögubókunum. Hann er fyrsti Evrópubúinn sem nær þessu afreki í karlaflokki. Raunar eru einungis hann og Gary Player sem eru ekki bandarískir en Player er frá Suður-Afríku.
Hér þarf að nefna að Bobby Jones er sá eini sem unnið hefur Grand Slam á einu ári og gerði það árið 1930. Hann vann öll stærstu mótin sem hann mátti taka þátt í en Jones gerðist aldrei atvinnumaður. Vann The Open, Opna Bandaríska, Breska áhugamannamótið og Bandaríska áhugamannamótið.
Fyrir vikið er Jones yfirleitt talinn meðal bestu kylfinga sögunnar ásamt Hogan, Nicklaus og Woods. Orðspor Bobby Jones minnkar ekki við þá staðreynd að hann keypti landareignina þar sem Augusta National völlurinn stendur og lét hanna völlinn fyrir sig.
Tiger Woods sker sig auk þess úr vegna árangursins um aldamótin. Árið 2000 vann hann Opna bandaríska, The Open og PGA-meistaramótið í þessari röð eins og skipulagið var þá. Í apríl árið 2001 vann hann Masters í annað sinn og var þá handhafi risatitlana fjögurra á sama tíma ef þannig má að orði komast.
Því hefur enginn annar náð jafnvel þótt Jack Nicklaus hafi unnið fleiri risamót en Tiger Woods á heildina litið.
Ljóst er að gífurlega erfitt er að vinna risamótin fjögur. Vellirnir eru afar misjafnir fyrir það fyrsta. Sem dæmi henta grastegundir kylfingum misjafnlega. Golf á breskum strandvöllum krefst gífurlegs leikskilnings rétt eins og glíman við flatirnar á Masters. Opna bandaríska hefur reynst mikil þolraun með þröngum brautum, hröðum flötum og miklum karga.
Mótin eru ólík og því þarf mikla fjölhæfni til að skara fram úr í öllum tilfellum fyrir utan að samkeppnin er gífurleg í íþrótt þar sem heimsklassa menn koma úr mörgum heimsálfum. Sigurvegarar í risamótunum í golfi hafa komið frá Suður-Afríku, Zimbabwe, Argentínu, Japan, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Fíjí-eyjum, Bandaríkjunum, Kanada og mörgum Evrópuríkjum svo eitthvað sé nefnt. Samkeppnin er því mjög mikil. Til samanburðar má nefna að heimsmeistarar karla í knattspyrnu hafa annað hvort komið frá Evrópu eða S-Ameríku.,
Rory McIlroy er 35 ára gamall og fæddist í Holywood í County Down á Norður-Írlandi en heldur til á Flórída eins og margir kylfingar á PGA-mótaröðinni.
McIlroy vakti snemma athygli og á Masters árið 2011 virtist hann ætla að tryggja sér sigur með frábærri spilamennsku. Reynsluboltinn í íþróttalýsingum Jim Nantz segir gjarnan að Masters hefjist þegar menn koma á seinni níu holurnar á sunnudegi. Svo fór að árið 2011 kastaði McIlroy frá sér sigri á Masters á síðari níu holunum á lokadeginum.
Það sat þó ekki lengi í honum og hann rúllaði upp Opna bandaríska um sumarið. Eftir að hafa unnið The Open sumarið 2014 var stórum áfanga náð og þá hafði hann unnið fjórum sinnum á risamótunum. Vantaði þá einungis sigur á Masters.
Þá gerðist eittthvað sem ekki er auðvelt að útskýra en síðan þá hafði McIlroy ekki unnið risamót þar til í gær. Ekki er þar með sagt að McIlroy hafi spilað illa ár eftir ár. Oft hefur hann unnið úrslitakeppnirnar á PGA- og Evrópumótaröðinni fyrir, utan að sýna styrk sinn í Ryder-bikarnum.
Að landa sigri á öllum risamótunum er enginn hægðarleikur eins og sést á upptalningunni. Til að setja hlutina í samhengi er ekki úr vegi að minna afreksmenn í íþróttinni sem oft hafa unnið risamót án þess að ná slemmunni. Arnold Palmer, Tom Watson, Seve Ballesteros, Berhard Langer, Nick Faldo, Ernie Els, Phil Mickelson, Jordan Spieth, Brooks Koepka og Bryson DeChambeau til að nefna einhverja.
Af þeim sem eru að spila í dag þá vantar Jordan Spieth sigur á PGA-meistaramótinu til að ná slemmunni og Mickelson vantar Opna bandaríska. Eins og oft hefur komið fram hefur Mickelson hafnað sex sinnum í 2. sæti á því tiltekna móti. Segja má að Mickelson sé í sérflokki þeirra sem ekki náðu slemmunni ásamt goðsögninni Arnold Palmer sem sigraði sjö sinnum á risamótum en vantaði PGA-meistaramótið. Hafnaði hann þrívegis í 2. sæti á því móti.
Í þessu samhengi þar sem risamótin eru til umfjöllunar má nefna að samkeppnin er svo hörð að heimsklassa kylfingar ná aldrei að vinna risamót enda eru þau aðeins í boði einu sinni á ári.
Í hópi þeirra sem hafa verið í fremstu röð án þess að vinna risamót eru kylfingar á borð við Colin Montgomerie, Scott Hoch, Lee Westwood, Rickie Fowler, Thomas Björn, Steve Stricker, Luke Donald og Miguel Angel Jimenez fyrir utan yngri menn sem eru í fullu fjöri. ,