„Ég er á leiðinni í LSU-háskólann í Louisiana,“ sagði Perla Sól Sigurbrandsdóttir, fremsti ungi kvenkylfingur Íslands, í samtali við mbl.is en hún hefur nám við skólann næsta haust, á meðan hún stundar íþróttina við bestu aðstæður.
„Ég byrja í haust og er mjög spennt. Þetta er sami skóli og Gunnlaugur Árni Sveinsson er í. Hann er búinn að standa sig mjög vel í ár,“ bætti Perla við, sem er mjög spennt.
„Það er mjög stórt skref fyrir mig að fara út og stunda nám með golfinu. Það er spennandi að vera í kringum alla þá bestu. Þetta er mikill íþróttaskóli og maður mun borða með ólympíuförum.
Ég mun æfa við bestu aðstæður og ferðast um öll Bandaríkin, spila golf og keppa við þær allra bestu. Ég hef mikið verið í Bandaríkjunum en aðallega í Flórída. Það verður skemmtilegt að skoða öll Bandaríkin,“ sagði hún.
Perla hefur vakið athygli fyrir góðan árangur á golfvellinum en hún var aðeins 15 ára þegar hún varð Íslandsmeistari árið 2022. Hún hafði því tækifæri til að verja úr fleiri skólum.
„Ég heimsótti skólann í nóvember árið 2023 ásamt fleiri skólum til að ákveða hvaða skóla ég ætlaði í. Ég hef séð æfingaaðstöðina, hvar ég mun búa og svona og þetta lítur vel út. Það er þægilegt að hafa Íslending þarna líka sem ég get talað við,“ sagði hún.
Það verður nóg að gera hjá Perlu næstu vikur og mánuði, fyrst heima á Íslandi og svo erlendis.
„Ég er á leiðinni í útskrift hjá bróður mínum sem er líka í háskóla í Bandaríkjunum [kylfingurinn Dagbjartur Sigurbrandsson] og svo útskrifast ég sjálf úr Verzló 24. maí. Eftir það byrjar mitt tímabil.
Fyrsta mótið, Opna breska, er 10. júní og eftir það eru mót nánast í hverri viku. Ég fer allavega til Svíþjóðar, Englands og Þýskalands. Það verður nóg um að vera,“ sagði hún.
En nær Perla eitthvað að skoða staðina sem hún keppir á?
„Ég reyni það. Ég hef keppt rétt hjá París og þá er gaman að kíkja í borgina og dreifa huganum eftir hringina.“
Markmið næstu vikna og mánaða er að vera sem best undirbúin fyrir háskólagolfið.
„Ég vil undirbúa mig sem best fyrir háskólagolfið, þar sem ég verð í golfi allan daginn alla daga og að keppa við þau bestu. Ég verð með herbergisfélaga en ég verð með sér herbergi, klósett og sturtu og það munar miklu,“ sagði Perla.