Íslandsmótið í holukeppni fer fram þessa dagana á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Kvennaflokkur spilaði 36 holur í gær og fóru efstu 16 áfram í holukeppnina.
Fyrirkomulag mótsins er að fyrst er spilaður 36 holu höggleikur, þar sem 16 efstu kylfingarnir komast áfram í holukeppnina. Þaðan hefst útsláttarkeppni sem endar með sigurvegara sem krýndur verður Íslandsmeistari kvenna í holukeppni árið 2025.
Eftir 36 holu höggleikinn var Pamela Ósk Hjaltadóttir efst en hún lék hringina tvo samtals á pari vallarins. Fyrri hringinn spilaði hún á 73 höggum en þann seinni spilaði hún mjög vel á 63 höggum.
Mikil spenna var um síðustu sætin inn í holukeppnina þar sem fjórir kylfingar voru jafnir í 16. sætinu á fimmtán höggum yfir pari og þurfti því að leika bráðabana um eitt laust sæti í útsláttarkepninni.
Það voru þær Embla Hrönn Hallsdóttir, Lilja Maren Jónsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir og Þóra Sigríður Sveinsdóttir sem fóru í bráðabana þar sem Embla Hrönn komst áfram í 16 manna úrslit og mætir hún þar Pamelu Ósk í leik um sæti í 8 manna úrslitum sem spilaður verður á morgun, sunnudag. Undanúrslitin og úrslit fara fram á mánudag.