Tommy Fleetwood er í dauðafæri að ná í fyrsta sigur sinn á PGA mótaröðinni en hann er með þriggja högga forystu fyrir lokahring Travelers meistaramótsins í golfi sem fer fram á TPC River Highlands vellinum í Connecticut í Bandaríkjunum.
Fleetwood spilaði frábærlega á þriðja hring í gær en hann spilaði á 63 höggum, sjö höggum undir pari og er samtals á 16 höggum undir pari. Hann er þremur höggum á undan Russell Henley og Keegan Bradley.
Henley var bestur á vellinum í gær en hann lék þriðja hringinn á 61 höggi eða níu höggum undir pari.
Efsti maður heimslistans, Scottie Scheffler, átti slakan dag í gær en hann spilaði á tveimur höggum yfir pari og er hann jafn í áttunda sæti mótsins, níu höggum á eftir Tommy Fleetwood.
Fleetwood hefur aldrei unnið mót á PGA mótaröðinni en fimm sinnum hefur hann verið í öðru sæti og fimm sinnum í þriðja sæti. Þá hefur hann endað 27 sinnum í topp fimm og 41 sinni í topp tíu. Þannig að sigurinn er orðinn langþráður og spurning er hvort hann komi loksins í hús í kvöld.