Eiginmaðurinn við Önnu: „Róaðu þig!“

„Valsliðinu vantaði varamarkmann í einhverjum þremur leikjum,“ sagði handknattleikskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í Dagmálum.

Anna, sem er 39 ára gömul, varð Íslandsmeistari í áttunda sinn á ferlinum með Val á dögunum þegar liðið hafði betur gegn Haukum í úrslitum Íslandsmótsins, 3:0.

Var nöppuð í Valsheimilinu

Anna æfði fótbolta lengi vel og á að baki tvo leiki í efstu deild með KR, ásamt því að eiga einn landsleik að baki með yngri landsliðum Íslands, en hún var varamarkmaður hjá Val í úrvalsdeildinni tímabilið 2021 þegar Fanney Inga Birkisdóttir var fjarri góðu gamni.

„Ég þekki Pétur Pétursson, þjálfara Vals, því stelpan hans var með mér í grunnskóla og ég var oft heima hjá honum þegar ég var yngri,“ sagði Anna.

„Hann nappaði mig í Valsheimilinu og bað mig um að sitja á bekknum hjá þeim þar sem Sandra Sigurðardóttir væri tæp í hásininni. Ég get alveg eins setið á bekknum þar eins og heima hjá mér hugsaði ég með mér.

Líkurnar ekki miklar

Það leiðinlegasta sem maður veit er að sitja á bekknum sem varamarkmaður því líkurnar á því að þú sért að fara koma inn á er 0,01 prósent,“ sagði Anna sem var svo spurð að því hvort hún hefði verið klár í að koma inn á í leikjunum.

„Klikkunin í mér er þannig að ég held að ég geti allt. Skelltu mér bara inn á og sjáum hvað gerist hugsa ég. „Róaðu þig!“ segir maðurinn minn svo við mig. Þú ert 39 ára gömul þriggja barna móðir sem hefur ekki æft fótbolta í tuttugu ár,“ sagði Anna meðal annars í léttum tón en eiginmaður Önnu er Finnur Ingi Stefánsson, fyrrverandi leikmaður Vals í handknattleik.

Viðtalið við Önnu Úrsúlu í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert