Ísland vann úrslitaleikinn

Íslenska landsliðið með bikarinn.
Íslenska landsliðið með bikarinn. Ljósmynd/HSÍ

Stelpurnar í U-20 ára landsliði Íslands í handbolta unnu úrslitaleikinn á alþjóðlega Friendly-Cup mótinu í Norður-Makedóníu gegn heimakonum, 32:29 í gær.

Mótið var síðasti partur af undirbúningi liðsins fyrir heimsmeistaramótið en fyrsti leikur liðsins er á miðvikudaginn klukkan 14.00 gegn Afríkumeisturum Angóla

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og var með yfirhöndina í fyrri hálfleik. Þær voru með sterkan varnarleik og þar fyrir aftan var Ethel Gyða Bjarnasen í miklu stuði. Þær voru fimm mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 16:11. Norður-Makedónía gerði alvöru áhlaup í seinni hálfleik en íslenska liðið svaraði því vel og vann 32:29 eftir baráttuleik.

Ísland er með Norður-Makedóníu í riðli á HM og mæta þeim aftur næstkomandi föstudag.

Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Elísa Elíasdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir og Lilja Ágústsdóttir 2 og Embla Steindórsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 13 bolta og Anna Karólína Ingadóttir 1 úr vítakasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert