Féllu í framlengingu gegn Evrópumeisturunum

Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sex mörk fyrir Ísland í leiknum …
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sex mörk fyrir Ísland í leiknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska U20-ára landslið kvenna í handknattleik tapaði í framlengdum leik gegn ríkjandi Evrópumeisturum Ungverjalands í aldursflokknum, 34:31, þegar liðin áttust við í átta liða úrslitum HM 2024 í Skopje í Norður-Makedóníu í dag.

Íslenska liðið leikur þar með um fimmta til áttunda sæti á mótinu. Á morgun mætir það Svíum sem töpuðu 25:21 fyrir Hollendingunum í átta liða úrslitunum í dag.

Fyrri hálfleikur reyndist Íslandi erfiður. Eftir jafnræði til að byrja með hófu Ungverjar að stinga af eftir að íslenska liðið jafnaði metin í 4:4.

Ungverjaland skoraði í kjölfarið fjögur mörk í röð og ekki leið á löngu þar til munurinn var orðinn sex mörk í stöðunni 11:5.

Mest náðu Ungverjar átta marka forystu undir lok fyrri hálfleiks en staðan að honum loknum var 19:12.

Frábær síðari hálfleikur

Í síðari hálfleik byrjaði Ungverjaland á því að komast níu mörkum yfir, 21:12, áður en Ísland tók einstaklega vel við sér og minnkaði muninn niður í aðeins þrjú mörk, 22:19.

Ungverjar náðu aftur vopnum sínum og komust í 25:20 en aftur minnkaði íslenska liðið muninn niður í þrjú mörk, 25:22, og svo í aðeins tvö mörk í 27:25 og 28:26.

Ungverjaland skoraði næsta mark en íslensku stúlkurnar voru síður en svo á því að gefast upp og Lilja Ágústsdóttir jafnaði í 29:29 þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum.

Reyndust það lokatölur venjulegs leiktíma og þurfti því að grípa til framlengingar.

Í henni náðu Ungverjar undirtökunum og voru yfir, 31:29, eftir fyrri hálfleikinn og komust í 32:29 sem var forskot sem íslenska liðið réð ekki við.

Markahæstar í liði Íslands í dag voru Lilja Ágústsdóttir með 7 mörk, Elín Klara Þorkelsdóttir með 6 og Inga Dís Jóhannsdóttir með 5 mörk. Elísa Elíasdóttir skoraði 3, Embla Steindórsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 3, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2 og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert