Allir hluteigandi mega bæta sig

Sigtryggur Daði Rúnarsson úr ÍBV sækir að vörn FH í …
Sigtryggur Daði Rúnarsson úr ÍBV sækir að vörn FH í kvöld. mbl.is/Anton Brink

Fyrirliði Eyjamanna Kári Kristján Kristjánsson skoraði 10 mörk þegar ÍBV laut í lægri hlut fyrir Íslandsmeisturum FH 33:30 í Kaplakrika í kvöld.

Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og komust 4 mörkum yfir í stöðunni 6:2 en þá fóru Hafnfirðingar í næsta gír og skoruðu 11 mörk gegn tveimur Eyjamanna. Mbl.is ræddi við Kára Kristján strax eftir leik og bað hann um að útskýra þennan viðsnúning:

„Við hefðum getað skorað sjöunda markið. Klúðrum víti og förum úr því að vera 6:2 yfir og lendum 13:8 undir. Þannig að sóknarleikurinn okkar hrynur á sama tíma og við erum í yfirtölu 6 mínútur. Það er skelfilegt í ljósi þess að við erum að tapa í yfirtölum. Þannig að við förum hræðilega með yfirtöluna. Við erum því bara sanngjarnt undir í hálfleik."

Þið náið samt að minnka muninn í fjögur mörk fyrir hálfleik og komið síðan í seinni hálfleikinn og minnkið muninn í tvö mörk. Hvað svo?

„Seinni hálfleikurinn er skömminni skárri. Eða við erum bara miklu betri í seinni hálfleik. Við förum í 5-1 vörn, Petar fer að verja á fullu en það er yfirtalan sem er að verða okkur að falli í kvöld."

Þið skorið samt 30 mörk í þessum leik. Á það ekki að duga til að vinna handboltaleik?

„Duga og ekki duga. Miðað við hvernig þessi leikur er að þróast þá á þessi leikur að fara langleiðina með þetta en við erum með 7 tæknfeila í fyrri hálfleik. Það er ógeðslega dýrt. Það er víða pottur brotinn þó það sé stutt í góða hluti alls staðar. Það er samt stutt í góða hluti alls staðar. En við erum sjálfum okkur verstir í dag."

Eyjamenn eru núna með einn sigur, eitt tap og eitt jafntefli. Næsti leikur er á móti Fjölni í Vestmannaeyjum. Það hlýtur að vera skyldusigur fyrir ÍBV gegn nýliðum deildarinnar eða hvað?

„Það er skyldusigur 100% Við eigum að vinna Fjölni. Miðað við hvað við erum að láta í liðið okkar og miðað við hvað Fjölnir er að setja í liðið sitt þá eigum við að vinna Fjölni."

Síðan kom Kári Kristján með yfirlýsingu:

„Ég tek það fram að í þessum leik þá mega allir hlutaðeigandi leiksins bæta sig. Ég endurtek: Það mega allir hlutaðeigandi leiksins bæta sig."

Í stað þess að spyrja Kára nánar út í þessa yfirlýsingu þá spyrjum við frekar að því hvað þurfa Eyjamenn að laga í sínum leik fyrir leikinn gegn Fjölni eftir slétta viku?

„Við þurfum að bæta leik okkar i yfirtölunni," sagði Kári Kristján í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert