Alltaf hiti þegar þessi lið mætast

Jóhannes Berg Andrason skýtur að marki ÍBV í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason skýtur að marki ÍBV í kvöld. mbl.is/Anton Brink

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var ánægður með þriggja marka sigur sinna manna á ÍBV í stórleik þriðju umferðar Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Spurður út í það hvort það mætti segja að lið FH hafi ekki mætt í þennan leik fyrr en um 10 mínútur voru liðnar leiknum sagði Sigursteinn þetta:

„Ég er kannski smá ósammála því en ég skil hvað þú ert að meina. Við lendum 4 mörkum undir í stöðunni 6:2 og ég tek leikhlé. Þá fór ég yfir það í leikhléinu að vörnin væri búin að standa fínt og stóra myndin væri alveg í lagi. Við vorum að klikka á góðum færum og henda frá okkur aulalegum boltum en það þurfti bara að halda fókus og halda leikplani. Eftir það kom frábær kafli hjá okkur."

FH skorar 11 mörk gegn 2 eftir þetta leikhlé. Hvað sagðirðu eiginlega við strákana?

„Ég sagði þeim bara að halda sig við leikplanið og vera kannski aðeins grimmari og fara í harðari árásir sem bæði Aron og Garðar gerðu í kjölfarið. Þá blés vindurinn bara með okkur og við náðum að komast yfir."

Eyjamenn minnka muninn aðeins í lok fyrri hálfleiks. Síðan ná þeir að minnka muninn í tvö mörk í byrjun seinni hálfleiks áður en þið aukið muninn aftur í 6 mörk en svo komast þeir aftur inn í leikinn. Afhverju náði FH ekki að klára leikinn fyrr?

„Við vorum sjálfum okkur verstir bara á þessum slæmu köflum þegar við erum að klúðra of mikið af dauðafærum. Kannski var smá stífla í mönnum eftir erfiðan síðasta leik. Ég vill ekki kalla þetta stress en kannski sat tapið í síðasta leik aðeins í mönnum."

Það kom kafli í leiknum þar sem allt virtist ætla að sjóða upp úr. Það koma tvö rauð spjöld og nokkur áköf brot. Kanntu skýringar á því hvað var í gangi þar?

„Nei svo sem ekki. Ég myndi segja að bæði þessi rauðu spjöld hafi verið klaufabrot hjá leikmönnum en ég held að þetta hafi bara verið ósköp venjulegt. Það er alltaf hiti milli FH og ÍBV. Það væri svekkjandi ef það væri ekki hiti í leik milli FH og ÍBV í ljósi sögunnar milli þessara tveggja liða."

Talandi um hitaleiki þá er næsti leikur gegn Haukum í Kaplakrika. Hvað þarf til að vinna topplið Hauka á mánudag?

„Haukar eru með frábært lið í góðu standi og eru að byrja þetta mót frábærlega. Við þurfum okkar besta leik á tímabilinu til að vinna leik á mánudag og það er akkúrat stefnan," sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert