Sagði ég það?

Blær Hinriksson sækir að marki KA í leiknum í kvöld. …
Blær Hinriksson sækir að marki KA í leiknum í kvöld. Hann skoraði fimm mörk. Eyþór Árnason

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var himinlifandi með alla sína leikmenn eftir stórsigur á KA í Mosfellsbæ í kvöld í úrvalsdeild karla í handknattleik, 33:22.

Gunnar leyfði mjög ungu liði að spila síðustu 10 mínútur leiksins og þá mátti sjá að framtíðin er björt hjá liði Aftureldingar. Við ræddum við Gunnar strax eftir leik og spurðum hann út í leikinn:

„Þetta var frábær frammistaða, sérstaklega í seinni hálfleik en að sama skapi var fyrri hálfleikur mjög góður þar sem við lögðum grunninn að þessu og héldum frumkvæði út leikinn. Ég er virkilega ánægður í alla staði með þennan leik" sagði Gunnar, spurður að því hvað hafi skapað sigurinn í kvöld.

Afturelding er núna með 4 stig eftir 3 leiki. Þú sagðir í lok síðasta tímabils að Afturelding ætli skrefi lengra á þessu tímabili og vinna titla. Sérðu fram á að það takist á þessum tímapunkti?

„Sagði ég það?" sagði Gunnar brosandi og hélt svo áfram: "Mótið er bara að byrja og við getum bæði unnið alla og tapað fyrir öllum en ég er ánægður með þetta lið og við viljum vera með í baráttunni en þetta er svo langur vetur og okkar markmið er bara að vinna alla leiki og safna stigi. Við erum með góða breidd og að mínu mati erum við stórhættulegir."

Þið skorið 33 mörk og fáið á ykkur 22. Þú hlýtur að vera ánægður með það, ekki satt?

Gunnar Magnússon fylgist með sínum mönnum af hliðarlínunni í kvöld.
Gunnar Magnússon fylgist með sínum mönnum af hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Jú, ég er mjög ánægður með þetta. Varnarleikurinn var mjög góður, sérstaklega í seinni hálfleik. Smá af mistökum í fyrri hálfleik sen síðan small þetta bara allt í seinni hálfleik."

Í lok leiksins setur þú allar þína yngstu leikmenn inn á völlinn og það var ekki að sjá að það breytti miklu upp á niðurstöðu leiksins. Framtíðin hlýtur því að vera björt hjá Aftureldingu eða hvað?

„Hér síðustu 10 mínúturnar voru inn á strákar sem urðu Íslandsmeistarar í 3. flokki. Já og þeir voru ekki bara að koma inn á í lokin því Harri kom inn á í fyrri hálfleik og setti fullt af flottum mörkum og sömuleiðis Daníel Bæring á línunni. Þetta eru bara ungir strákar sem hafa fengið tækifæri og traust. Ég hef sagt áður að þetta eru allt alvöru gaurar og við höfum trú á þeim en þeir þurfa tíma til að bæta sig og þroskast en þetta eru framtíðarleikmenn."

Næsti leikur er gegn nýliðum ÍR. Þú hefur hingað til ekki viljað setja stimpilinn skyldusigur á neina leiki. Það hlýtur samt að vera algjör skylda fyrir Aftureldingu að vinna ÍR ef þið ætlið að berjast um titla í vetur ekki satt?

„Þar eru tvö hrikalega mikilvæg stig í boði og auðvitað ætlum við okkur að vinna ÍR. Það er eins og ég sagði áðan að við getum unnið alla og tapað fyrir öllum en við þurfum bara undirbúa okkur fyrir ÍR. Við njótum þessa sigurs í kvöld og svo förum við að undirbúa þann leik."

Eitthvað sem mátti fara betur í leik þinna manna í kvöld?

„Nei þetta er bara svona leikur þar sem allt gekk upp og bara þægilegur dagur á skrifstofunni," sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert