Þetta er algjörlega óboðlegt

Patrekur Stefánsson reynir að komast í gegnum vörn Aftureldingar í …
Patrekur Stefánsson reynir að komast í gegnum vörn Aftureldingar í leiknum í kvöld. Eyþór Árnason

KA fékk skell gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í kvöld, 33:22, þegar liðin mættust þar í úrvalsdeild karla í handknattleik.

Eftir leikinn er KA án stiga eftir þrjár umferðir. Þegar mbl.is tók þjálfara KA, Halldór Stefán Haraldsson, tali strax eftir leik var hann allt annað en ánægður með frammistöðu liðsins.

KA tapar hér með 11 marka mun í kvöld. Hvernig útskýrir maður svona tap?

„Það er mjög einfalt að útskýra þetta. Menn gefast bara upp hérna í seinni hálfleik. Við spilum fyrri hálfleik vel og eigum möguleika á að minnka muninn í eitt fyrir leikhlé. Við náum samt aldrei að tengja saman vörn og markvörslu en svo kemur seinni hálfleikur og þá gjörsamlega hrynur þetta. Þessi frammistaða er bara til skammar."

KA nær að jafna tvisvar sinnum í fyrri hálfleik en síðan tekur Afturelding við sér og nær aftur forskoti fyrir hálfleik. Maður bjóst samt við að seinni hálfleikur yrði barátta en svo reyndist ekki vera. Eru leikmenn KA ekki í nægilega góðu formi?

Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA ræðir við sína menn í …
Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA ræðir við sína menn í Mosfellsbæ í kvöld. Eyþór Árnason

„Mér finnst þetta bara vera hausinn. Kannski erum aðeins á eftir áætlun með Dag Árna sem var að spila með landsliðinu og Kamil meiðist og er frá allt undirbúningstímabilið. Síðan er Bjarni að koma inn og allt það. Það samt útskýrir ekki þetta andleysi í seinni hálfleik. Þetta voru bara lélegar ákvarðanir, léleg skot. Síðan erum við einum færri hérna nánast allan seinni hálfleikinn af því að við erum bara vitlausir og gerum mistök. Þetta er algjörlega óboðlegt."

Þú ert augljóslega mjög ósáttur með þessa frammistöðu en staðan er sú að KA er án stiga eftir þrjár umferðir. Það er nú ekki ásættanlegt fyrir lið eins og KA eða hvað?

„Við erum búnir að mæta Haukum og Aftureldingu sem eru góð lið. Við áttum auðvitað að gera miklu betur á móti Gróttu en það er kannski innan gæsalappa ekkert óeðlilegt að við töpum fyrir liði eins og Aftureldingu á útivelli. Það er hinsvegar hvernig við spilum og skilum þessum leik frá okkur sem er áhyggjuefnið. Það er bara til skammar hvernig við spilum þennan seinni hálfleik."

Frá botninum liggur leiðin bara upp á við en spurningin er hvernig stígur KA upp frá botninum?

„Við erum ennþá að fá Bjarna Ófeig inn í okkar leik og við þurfum að koma útlendingnum okkar í form og fá miklu meira frá honum. Ég held að við verðum mjög flottir þegar líður á en það þarf að gerast mjög fljótlega. En ef við horfum á fyrri hálfleikinn þá þurfum við að halda þeirri spilamennsku áfram ásamt því að tryggja markverðina okkar í gang með varnarleiknum. Það er bara það sem við þurfum að gera," sagði Halldór Stefán í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert