Gamla ljósmyndin: Eina konan sem stýrt hefur landsliðinu

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Erla Rafnsdóttir var ein mesta íþróttakona þjóðarinnar á níunda áratugnum og var afgerandi bæði í handboltanum og fótboltanum. Átti hún fast sæti í landsliðinu í báðum greinum. 

Meðfylgjandi mynd af Erlu fannst útprentuð í myndasafni Morgunblaðsins. Eins og stundum er með gamlar ljósmyndir þá hefur þessi orðið fyrir skemmdum þar sem hægra hornið niðri er rifið. En Erla sést þó einbeitt og allt að því grimm á svip í hraðaupphlaupi. 

Myndin er líklega tekin árið 1986 og er Erla þar í leik með Stjörnunni gegn Fram í gamla íþróttahúsinu í Ásgarði í Garðabæ. Fyrir aftan má sjá samherja hennar Guðnýju Gunnsteinsdóttur og Sigrúnu Blomsterberg úr Fram. 

Erla var kjörin leikmaður ársins á lokahófi HSÍ 1989 og var þá jafnframt markadrottning. Framganga hennar vakti þá meiri athygli en áður sökum þess að hún sleit krossband í hné árið 1987. Hún lék ekki knattspyrnu í efstu deild eftir hnémeiðslin. 

Erla tók við þjálfun kvennalandsliðsins í handknattleik árið 1992 og stýrði liðinu til 1995. Er hún eina konan sem stýrt hefur íslenska A-landsliðinu í handknattleik. 

Erla lék með Stjörnunni í handboltanum en lengst af með Breiðabliki í fótboltanum fyrir utan eitt tímabil með Stjörnunni. Hún vann fjölda Íslandsmeistaratitla í báðum greinum.

Skoraði hún 71 mark í 78 leikjum í efstu deild Íslandsmótsins í fótboltanum. Hún var illviðráðanleg á vellinum og til að taka dæmi skoraði hún 21 mark í 13 leikjum fyrir Breiðablik sumarið 1985.  Hér má benda á að kjörið á besta leikmanni Íslandsmóts kvenna á lokahófi KSÍ kom ekki til sögunnar fyrr en árið 1988 eða eftir að Erla lagði takkaskóna á hilluna. Ef til vill hefði henni getað hlotnast slíkur heiður í tveimur greinum. 

Erla lék 13 leiki með A-landsliðinu í knattspyrnu og skoraði 4 mörk.  

Erla var valin Íþróttamaður ársins í Garðabæ árið 1990. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert