Vantaði aðeins upp á fávitann í okkur

Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Aron Pálmarsson fyrirliði FH var brattur og sigurreifur eftir dramatískan sigur á Haukum í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld.

Við báðum Aron um að lýsa tilfinningum sínum eftir þennan sigur.

„Ég viðurkenni að þetta er mikill létti. Við spiluðum nokkuð vel bæði varnarlega og sóknarlega með þeirri undantekningu að við köstuðum boltanum of mikið frá okkur allan leikinn og vorum ekki nægilega góðir að hlaupa til baka.

Þannig við gerðum okkur þetta aðeins erfitt fyrir því ef bara þessir hlutir hefðu verið í lagi þá hefði þetta verið auðveldara,“ sagði hann.

Má ekki segja að Daníel Freyr hafi verið hetjan ykkar í kvöld?

„Jú alveg klárlega. Hann varði bara allt síðustu 10 mínúturnar og hann var alveg frábær og steig upp i okkar leik,“ sagði Aron um markvörð FH.

Það kom kafli í byrjun seinni hálfleiks þar sem þú jafnar fyrir FH og svo komist þið þremur mörkum yfir og Haukar skora ekki í 7 mínútur. Þetta eru talsverð kaflaskipti miðað við fyrri hálfleikinn.

„Við fengum ekki þessu auðveldu mörk á okkur, náðum að bakka í vörn og stilla upp okkar vörn. Fórum í 6-0 vörnina á þessum tímapunkti. Það var kannski aðal málið. Síðan töluðum við um það í hálfleik að það væri ótrúlegt að vera að mæta Haukum og það vantaði 10-15% upp á grimmdina í okkur.

Þannig að við töluðum um að það vantaði aðeins upp á fávitann í okkur. Það kom í seinni hálfleik og við byrjum að leiða en síðan hleyptum við þeim aftur inn í þetta með klaufalegum sendingum,“ sagði hann.

Það hlýtur að vera sætt að vinna Hauka í svona leik eins og hann vannst í kvöld ekki satt?

„Já, það er glatað þegar þessir leikir fara jafntefli, þá er enginn sáttur. Það er bara alltaf æðislegt að vinna Hauka. Hvort sem það er með einu eða tíu mörkum.

Maður fer töluvert sáttari á koddann núna heldur en eftir marga aðra sigurleiki. Við vorum líka með lélegan árangur gegn Haukum í fyrra og við töluðum um að við ætluðum að laga það,“ sagði Aron.

Næsti leikur er gegn Stjörnunni í Garðabæ. Þeir hafa verið að koma á óvart. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Okkur leið aldrei vel á móti þeim í fyrra og þeir voru erfiðir. Hrannar er að gera frábæra hluti þarna finnst mér. Þeir eru vel skipulagðir og fara ekkert fram úr sér. Við þurfum að mæta vel gíraðir í þann leik og þar er ekkert gefins,“ sagði Aron Pálmarsson að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert