Þá Guð hjálpi mér

Sveinn Andri Sveinsson úr Stjörnunni með boltann í kvöld.
Sveinn Andri Sveinsson úr Stjörnunni með boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar var allt annað en ánægður með sóknarleik liðsins þegar Stjarnan tapaði með fjórum mörkum gegn FH í Garðabæ í kvöld. Hann tók það samt fram að hann væri ekki á sömu skoðun með varnarleikinn sem var oft á tíðum frábær. Við ræddum við Hrannar strax eftir leik:

Það var mikið jafnræði á með liðunum allt fram í miðjan síðari hálfleik en þá síga Hafnfirðingar fram úr. Kanntu skýringar á því?

„Við gerðum alltof mikið af mistökum. Það voru 3-4 sóknir í röð þar sem við hreinlega grípum ekki boltann í fyrri hálfleik. En á sama tíma spilum við hrikalega flotta vörn en fáum samt klaufaleg mörk á okkur. En sóknarlega vorum við alltof stirðir og lítil skotógn. Virkilega pirrandi."

Í síðari hálfleik nær Stjarnan að minnka muninn niður í eitt mark en þá síga þeir fram úr. Það sem ég tek eftir eru hversu mörg mörk FH skorar úr hornunum eftir að hafa galopnað hornin. Voruð þið í vandræðum þar?

„Þeir skora 14 mörk í seinni hálfleik, þar af eru 5 á síðustu 5 mínútunum. En nei einhversstaðar þurfa mörkin að koma. Ef við hefðum skrúfað fyrir hornafærin þá hefðu þeir kannski skorað færri mörk, ég veit það ekki. Vörnin var samt hrikalega flott í heildina og Adam var frábær í markinu þannig ég horfi á að vandamálið hafi verið hinumegin á vellinum hjá okkur."

Það voru ansi mörg sóknarmistök hjá Stjörnunni, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Stjarnan tapar boltanum 9 sinnum. Voru menn stressaðir?

„Ég veit ekki hvað það var. Kannski var skrýtið spennustig í sókninni hjá okkur en eins og ég sagði þá var það ekki þannig í vörninni. Stundum er þetta bara svona. Við förum líka illa með vítin, klúðrum tveimur í fyrri hálfleik og tveimur hraðaupphlaupum á sama tíma og þeir skora úr fjórum hraðaupphlaupum eftir að við gefum þeim boltann."

Næsti lekur hjá ykkur er gegn Fjölni sem eru nýliðar. Ég veit að þjálfurum finnst leiðinlegt að tala um skyldusigra en það hlýtur samt að vera þannig í þessum leik eða hvað?

„Nei það er enginn skyldusigur í þessu. Við erum bara að hugsa um okkur og þetta er bara alvöru próf því það er auðvelt að mótivera sig gegn stóru liðunum en það getur verið vandasamt að mótivera sig gegn liðum sem eru að koma upp. Þar skilur bara á milli hvaða hugarfar menn bera í þessum verkefnum. Við þurfum að vera klárir gegn Fjölni því ef Stjarnan ætlar að fara mæta í einhverja leiki á 60% hraða þá Guð hjálpi mér."

Hvað þarf Stjarnan að laga fyrir leikinn gegn Fjölni?

„Við þurfum bara að fækka mistökum og auka skotógn. Við þurfum bara að bæta okkar leik. En að lokum langar mig að segja hvað ég er þakklátur okkar stuðningsmönnum fyrir mætinguna í kvöld. Ég er hrikalega ánægður með mætinguna. Við erum ótrúlega skemmtilegt lið að horfa á og við berjumst þó að við töpum eins og í kvöld að þá skiljum við allt eftir á vellinum," sagði Hrannar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert