Beit andstæðing og fékk langt bann

Jorge Maqueda missti stjórn á skapi sínu um síðustu helgi.
Jorge Maqueda missti stjórn á skapi sínu um síðustu helgi. AFP

Spænski handknattleiksmaðurinn Jorge Maqueda, leikmaður Kielce, hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann í úrvalsdeild Póllands eftir að hann beit andstæðing sinn Mirza Terzic, leikmann Wisla Plock, í erkifjendaslag um síðustu helgi.

Topp- og erkifjendaslagur Kielce og Wisla Plock er þekktur sem „Hið heilaga stríð“ í Póllandi og er ávallt sérstaklega hart barist.

Alls fengu leikmenn tveggja mínútna brottvísun 21 sinni í leiknum auk þess sem Maqueda fékk bláa spjaldið eftir að dómarar leiksins skoðuðu atvikið þegar hann beit Terzic í VAR-skjánum.

Í lok leiks kom til stympinga milli leikmanna liðanna.

Mál þjálfaranna á borði lögreglu

Þjálfurum liðanna, Talant Dujshebaev hjá Kielce og Xavier Sabate hjá Wisla Plock, lenti þá saman á meðan leiknum stóð. Sabate sakaði Dujshebaev um að hafa hrækt á sig og Dujsheabaev sakaði Sabate um að hafa kallað sig “helvítis Kínverja.”

Mál þjálfaranna er komið á borð lögreglu.

Viktor Gísli Hallgrímsson er markvörður Wisla Plock, sem vann leikinn 29:25 og er í efsta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka