„Það er erfiðara að vinna leiki heldur en að tapa,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Víkinni í gær. Ísland mætir Bosníu í undankeppni EM 2026 annað kvöld en leikurinn er sá fyrsti hjá landsliðinu í rúma fimm mánuði.
Ísland mætir síðan Georgíu í Georgíu næstkomandi sunnudag en Grikkland er fjórða lið riðilsins. Íslensku landsliðsmennirnir voru nýbúnir að hittast á ný þegar að Morgunblaðið talaði við Ými Örn.
Ýmir kvaðst spenntur fyrir komandi verkefni, en flestir voru nýlentir og því allur undirbúningur eftir. „Við vorum bara flestir að hittast núna og sumir eru enn að koma sér af flugvellinum. Við erum að fara á myndbandsfund og síðan er fyrsta æfingin á eftir. Það er alltaf gaman að hitta strákana og í raun alltaf góð stemning þegar við komum saman í landsliðið,“ sagði Ýmir.
Fyrir fram er Ísland langsterkasta lið riðilsins en hin þrjú hafa öll verið á mikilli siglingu undanfarin ár. Öll þrjú liðin voru með á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar á þessu ári en Georgía var það eina sem vann leik, 22:19 gegn Bosníu. Að Ýmis sögn er leikurinn annað kvöld ekkert gefinn.
„Það er alveg hægt að segja að við séum mun sterkari aðilinn en það þarf nú að spila leikina. Það er erfiðara að vinna leiki en að tapa og við munum þurfa að hafa fyrir þessu. Nú verða tvær til þrjár góðar æfingar fyrir leikinn og við setjum upp gott plan. Við erum tilbúnir í hörkuleik í Höllinni.“
Viðtalið í heild sinni má sjá í Morgunblaði dagsins.