„Mér fannst ég skila mínu í dag,“ sagði Þorsteinn Leó Gunnarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir sigur íslenska liðsins gegn Bosníu í C-riðli undankeppni EM 2026 í Laugardalshöll í kvöld.
Leiknum lauk með sex marka sigri Íslands, 32:26, en Þorsteinn Leó átti frábæra innkomu í kvöld og skoraði 8 mörk í seinni hálfleik.
„Vörnin hjá þeim opnaðist meira eftir að ég kom inn á og það opnaðist líka fyrir aðra. Ég er mjög sáttur með dagsverkið. Einu skilaboðin sem ég fékk, þegar ég kom inn á, var að negla á þetta og fara í þetta af 100 prósent krafti sem ég og gerði.
Stemningin í höllinni var frábær og það er alltaf skemmtilegast að spila á Íslandi. Lætin í áhorfendum gáfu mér klárlega aukakraft og hjálpuðu mér inn á vellinum,“ sagði Þorsteinn Leó.
Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Georgíu á útivelli á sunnudaginn kemur.
„Þessi sigur gefur okkur sjálfstraust, farandi inn í leikinn gegn Georgíu og við munum taka það jákvæða með okkur úr þessum leik inn í þann næsta. Það er mikil samkeppni um stöður innan liðsins og þú þarft að skila þínu og standa þig þegar þú færð tækifæri, ef þú ætlar þér að vera í þessu liði,“ bætti Þorsteinn við í samtali við mbl.is.