Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach unnu öruggan sigur gegn FH, 32:24, í H-riðli Evrópudeildar karla í handknattleik í Gummersbach í Þýskalandi í kvöld.
Gummersbach er á toppi riðilsins með átta stig en FH er á botninum með tvö stig.
Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og var staðan 5:5 þegar 10 mínútur voru liðnar af leiknum. Þá kom góður kafli hjá FH-ingum sem skoruðu þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 8:5.
Gummersbach tók öll völd á leiknum í kjölfarið og skoraði 10 mörk í röð og var staðan því 15:8 þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik. FH náði þó aðeins að laga stöðuna fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 16:10, Gummersbach í vil.
Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik. FH spilaði fínan seinni hálfleik en tókst ekki að saxa á forskot Gummersbach. Undir lok leiks náði Gummersbach að auka forskot sitt í átta mörk. Lokaniðurstöður, 32:24-sigur Gummersbach.
Jóhannes Berg Andrason var markahæstur í liði FH með sex mörk. Ásbjörn Friðriksson gerði fjögur mörk fyrir FH. Daníel Freyr Andrésson varði 11 skot eða var með 25,6% markvörslu.
Í liði Gummersbach var Lukas Blohme markahæstur með átta mörk. Kristjan Horzen skoraði fimm mörk fyrir FH. Bertram Obling varði 11 skot eða var með 52,4% markvörslu.