ÍBV hafði betur gegn Val, 34:28, í úrvalsdeild karla í handbolta í Vestmannaeyjum í dag.
Úrslitin þýða að ÍBV situr í sjötta sæti deildarinnar með 13 stig en Valur er í þriðja sæti með 16 stig.
Eyjamenn byrjuðu viðureignina betur og komust tvisvar fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik, 12:8 og 16:12. Valur endaði fyrri hálfleikinn og náði að minnka forystuna í eitt mark þegar flautað var til hálfleiks, 18:17.
ÍBV var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og vann að lokum öruggan sex marka sigur, 34:28.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson átti stórleik fyrir Val og skoraði 16 mörk.
Í liði ÍBV var Gauti Gunnarsson markahæstur með átta mörk. Daniel Esteves Vieira skoraði sjö mörk fyrir Eyjamenn.
Petar Jokanovic varði 10 skot í marki ÍBV eða var með 30,3% markvörslu. Björgvin Páll Gústavsson varði sjö skot í marki Vals eða var með 21,9% markvörslu.