Íslensku landsliðskonurnar í handknattleik sem leika í þýsku 1. deildinni máttu allar sætta sig við tap með liðum sínum í kvöld.
Íslendingalið Blomberg-Lippe laut í lægra haldi gegn Thüringer, 23:21. Með sigrinum komst Thüringer í 12 stig og fór upp fyrir Blomberg-Lippe, sem er í fjórða sæti með 11 stig.
Andrea Jacobsen átti fínan leik fyrir Blomberg-Lippe er hún skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði ekki en gaf eina stoðsendingu.
Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar hennar í Metzingen töpuðu þá stórt á heimavelli, 23:33.
Sandra skoraði ekki fyrir Metzingen en gaf þrjár stoðsendingar. Metzingen er í tíunda sæti af tólf liðum með aðeins fimm stig.