Þórir Hergeirsson var kjörinn besti þjálfarinn á 69. hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem haldið er í Hörpu í kvöld. Hann var einnig kjörinn árin 2021 og 2022. Þórir hefur fjórum sinnum verið í öðru sæti í kjörinu.
Þórir gerði kvennalið Noregs í handbolta að Ólympíumeisturum í ágúst og Evrópumeisturum í desember. Voru það síðustu mót Þóris með liðið því hann lét af störfum eftir EM, eftir einstaklega sigursæl rúm 15 ár.
Þórir skilur við norska liðið sem sigursælasti landsliðsþjálfari heims. Á 20 stórmótum vann liðið til 17 verðlauna undir hans stjórn, þar af 11 gullverðlauna, þrennra silfurverðlauna og þrennra bronsverðlauna. „Versti“ árangurinn var fimmta sæti á tveimur mótum.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta, varð í öðru sæti. Undir hans stjórn varð Valur fyrsta liðið til að vinna Evrópukeppni á vegum EHF er liðið varð Evrópubikarmeistari í maí. Þá varð liðið bikarmeistari í mars.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta, varð þriðji. Víkingsliðið gerði gríðarlega vel í að tryggja sér sæti í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar. Þá komst Víkingur í bikarúrslit gegn KA og lék hreinan úrslitaleik við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn en þeir leikir töpuðust báðir.
Niðurstaðan í kjörinu:
1. Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennaliðs Noregs í handbolta 116
2. Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta 48
3. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta 17
4. Alfreð Gíslason, þjálfari karlaliðs Þýskalands í handbolta 15
5. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta 9
6. Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta 6
7. Freyr Alexandersson, þjálfari karlaliðs Kortrijk í fótbolta 5